Heim flag

10 km

Þrátt fyrir að vegalengdin eigi sér langa sögu í Miðnæturhlaupi þá hefur sú leið sem hlaupin er í Miðnæturhlaupinu 2019 einungis sjö sinnum áður staðið hlaupurum Miðnæturhlaups til boða eða frá árinu 2012. Leiðin mældist vel fyrir hjá þátttakendum, líkt og leiðir hinna vegalengdanna tveggja, og mun hlaupurum standa hún aftur til boða í Miðnæturhlaupi Suzuki 2019

Þátttakendur

10 km hlaupið er ætlað fyrir 12 ára og eldri og er ekki æskilegt að yngri börn taki þátt. 

Skráning 

Skráning í 10 km hlaup fer fram á vef Reykjavíkurmaraþons, marathon.is, en einnig er hægt að skrá sig á hlaupdag í Laugardalshöllinni. Athugið þó að verð er hærra á hlaupdag en í netskráningu. Smellið hér til að fá nánari upplýsingar um skráningu í Miðnæturhlaup Suzuki. 

Leiðin

10 km hlaupið hefst fyrir utan Íþróttamiðstöðina í Laugardal. Þegar hlauparar koma úr Laugardalnum hlaupa þeir í gegnum hið rótgróna hverfi Vogahverfi, eftir Gnoðarvogi. Því næst er hladið yfir Miklubrautina og yfir í Elliðaárdalinn þar sem hlaupinn er hringur. Hlaupið er meðfram Elliðaánum og þær þveraðar þegar hlaupið er ofan á stíflunni. Að loknum hringnum í Elliðaárdalnum tekur við svipuð leið til baka líkt og farið var í byrjun. Þrátt fyrir að hefja hlaupið á malbiki munu þátttakendur í 10 km hlaupi að mestu fylgja stígum á leið sinni.

Hlaupaleiðin er mæld samkvæmt stöðlum AIMS (alþjóðleg samtök hlaupa) og viðurkennd af Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Smelltu hér til að skoða kort af leiðinni.

Drykkjarstöðvar

Þátttakendum í 10 km hlaupi gefst kostur á að svala þorstanum að 5 km loknum upp við stíflu í Elliðaárdal og svo aftur þegar komið er í mark. Það er Vífilfell sem býður þátttakendum Powerade drykki og vatn. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar um drykkjarstöðvarnar.

Salernisaðstaða

Þátttakendur í Miðnæturhlaupi Suzuki geta komist á salerni í Laugardalshöll en einnig eru færanleg salerni/kamrar á marksvæði fyrir aftan Skautahöllina og við stífluna í Elliðaárdal (eftir u.þ.b. 5 km).

Verðlaun 

Í skráningarferlinu hafa þátttakendur í Miðnæturhlaupi Suzuki val um hvort þeir vilja fá afhendan verðlaunapening þegar þeir koma í mark eða ekki. Öllum stendur því til boða að fá verðlaun. Í 10 km hlaupi verða veitt verðlaun fyrir 1.-3. sæti karla og kvenna auk þess sem verðlaun verða veitt fyrir 1. sæti karla og kvenna í aldursflokkum. Smelltu hér til að kynna þér nánar hvaða verðlaun eru í boði í Miðnæturhlaupi Suzuki.

Tímataka

Mylaps tímatökumottur eru bæði í upphafi og enda hlaups og því fá hlauparar bæði sinn persónulega tíma (flögutíma) og byssutíma. Byssutími gildir til úrslita í hlaupinu eins og alþjóðlegar reglur um lögleg götuhlaup segja til um. Smelltu hér til að fá nánari upplýsingar um tímatöku.

Sendu okkur póst á  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  ef þig vantar nánari upplýsingar um 10 km hlaupið í Miðnæturhlaupi Suzuki.

Um Íþróttabandalag Reykjavíkur

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavik International Games í janúar.