Heim flag

Laugavegshlaupið 2019

Laugavegshlaupið er 55 kílómetra langt utanvegahlaup sem haldið verður í 23. sinn þann 13. júlí 2019. Skráning í hlaupið hefst í janúar 2019.

Hlaupið er fyrir mjög vana hlaupara 18 ára og eldri en enginn ætti að skrá sig fyrr en hann er búinn að kynna sér vel skilyrði fyrir þátttöku.

Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands, tvær náttúruperlur. Staðsetningin gerir það að verkum að Laugavegurinn er einungis þjónustaður í nokkrar vikur á ári.

Í hugum margra hlaupara er Laugavegshlaupið skemmtilegasta hlaupið á Íslandi. Á þessari krefjandi leið verða hlauparar vitni að ótrúlegri náttúrufegurð. Göngugarpar eru venjulega 4 daga á leið sinni um Laugaveginn. Undirlendið er fjölbreytt þar sem hlaupið er á sandi og möl, í grasi og snjó, á ís, yfir ár og læki.

Áhugaverðir tenglar

Er Laugavegshlaupið fyrir þig?

Myndbönd

Greinar

Rannveig og Þorbergur sigruðu Laugavegshlaupið 2018

Laugavegshlaupið fór fram í 22.sinn í dag í ágætis aðstæðum. Sigurvegarar hlaupsins voru þau Þorbergur Ingi Jónsson og Rannveig Oddsdóttir.

Rannveig sigraði í kvennaflokki en hún hljóp á besta tíma íslenskra kvenna frá upphafi á þessari 55 km leið, 5:16:11. Í öðru sæti var Anna Berglind Pálmadóttir á 5:26:28 og í því þriðja Diana Dzaviza frá Lettlandi á 5:30:04.

Þorbergur Ingi sigraði í karlaflokki á þriðja besta tíma sem náðst hefur í hlaupinu 4:10:44. Hann nú fjóra bestu tímana í hlaupinu. Í öðru sæti var Simon Karlsson frá Svíþjóð á 4:32:21 og í þriðja sæti Ingvar Hjartarson á 4:34:40.

Aðstæður voru betri en flestir þorðu að vona á hlaupaleiðinni í dag, ekki rigning í upphafi eins og spáð var og hlýrra. Snjórinn í kringum Hrafntinnusker sem er hæðsti punktur leiðarinnar var þó hlaupurum erfiður því hann var laus í sér. Þó vindur væri ekki mikill þegar komið var framhjá Hrafntinnuskeri var hann í fangið á hlaupurum sem er alltaf erfitt.

Smellið hér til að skoða heildarúrslit hlaupsins.

Til hamingju með árangurinn og takk fyrir góðan dag!

winners2018

22. Laugavegshlaupið í dag

Laugavegshlaupið fer fram í 22. sinn í dag laugardaginn 14.júlí 2018. Alls eru 553 hlauparar á ráslista, 204 konur og 349 karlar. Aldrei hafa fleiri verið skráðir til þátttöku í Laugavegshlaupinu en nú. Íslenskir þátttakendur eru 294 talsins og frá öðrum löndum 259. Fjölmennastir erlendu gestanna eru Bandaríkjamenn en þeir eru 63 skráðir, þá Bretar sem eru 31 talsins og þriðja fjölmennasta þjóðin eru Frakkar sem eru 25 skráðir til þátttöku. Þátttakendur í hlaupinu eru af 30 mismunandi þjóðernum.

Hlaupið hefst í Landmannlaugum kl.9:00 og lýkur í Húsadal í Þórsmörk. Eins og margir vita er Laugavegurinn ein fjölfarnasta og vinsælasta gönguleiðin um íslensk öræfi. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en met hlauptími á þessari 55 km leið í Laugavegshlaupi er 3 klukkustundir og 59 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir í kvennaflokki. Tímamörk eru í hlaupinu og þurfa hlauparar að vera komnir í Álftavatn (22 km) á innan við 4 klst og í Emstrur (34 km) á innan við 6:15 klst. Það er því aðeins fyrir vel æfða hlaupara að taka þátt í þessari miklu þolraun.

Stefnt er að því að vera með lifandi úrslit hér á timataka.net en vegna óstöðugs gsm sambands á svæðinu er ekki hægt að lofa því. Fregnir af fyrstu hlaupurum verða birtar á Facebook síðu hlaupsins um leið og þær liggja fyrir en heildarúrslit verða birt hér á vefnum að hlaupi loknu eða um kl.19.

Áhorfendum sem vilja koma inn í Þórsmörk til að taka á móti hlaupurum er bent á að rútuferðir eru á vegum Reykjavik Excursions frá Reykjavík, Hvolsvelli og fleiri stöðum sem hægt er að bóka á re.is

Gagnlegar upplýsingar:

Dagskrá hlaupdags
Nafnalisti þátttakenda
Facebook
Instagram

 F3B0769-small

Uppfærð veðurspá

Veðurvaktin hefur sent okkur uppfærða veðurspá fyrir hlaupaleiðina á morgun. Spáin í dag er aðeins betri en sú sem við sendum á miðvikudaginn, von á sólarglennum í Emstrum og Húsadal og hægari vind á því svæði sem við gleðjumst mikið yfir. Áfram er spáð þoku, rigningu og roki í Hrafntinnuskeri. Þar þarf því að fylgjast vel með appelsínugulu flöggunum sem búið er að setja í snjóinn til að fara ekki af leið. Smellið á myndina til að skoða spána nánar.

LV18-vedurspa-1307-islenska

Staðan á hlaupaleiðinni

Staðan á hlaupaleiðinni er góð samkvæmt skálavörðum og göngufólki á svæðinu. Snjórinn við Hrafntinnusker hefur aðeins hopað en er þó enn í 2-3 km radíus þar í kring. Það sem hefur helst truflað göngufólk er snjókrapi og þurfa hlauparar gera ráð fyrir að fara yfir slíkt undirlag á einhverjum tímapunkti, líklega í útjaðri snjólínunnar.

Rútuferðir

Minnum á að rútur hlaupsins fara frá Skautahöllinni í Laugardal kl. 4:30 í fyrramálið. Þau sem pöntuðu sæti í rútunni frá Selfossi þurfa að mæta kl.5:00 á N1 bensínstöðina á Selfossi. Þeir sem koma í rútuna í Hrauneyjum þurfa að vera tilbúnir kl.7:00.  Mikilvægt er að mæta tímanlega því rútan bíður ekki eftir neinum. Það verður hægt að komast á klósett í Skautahöllinni í Laugardal fyrir brottför eða frá kl.4:15-4:25 en næsti möguleiki eftir það er ekki fyrr en í Hrauneyjum um tveimur tímum síðar.

Afhending hlaupagagna

2015-number-pickup

Hlaupagögn fyrir Laugavegshlaupið 2018 verða afhend í Laugardalshöll fimmtudaginn 12.júlí milli kl.12 og 17 og föstudaginn 13.júlí milli kl.9 og 17.

Við afhendingu gagna þarf að framvísa persónuskilríkjum og undirrita skilmála. Meðal annars er verið að undirrita samþykki fyrir því að hafa kynnt sér reglur hlaupsins og því mikilvægt að þátttakendur lesi þær hér á vefnum. Þau sem ekki komast til að veita gögnum sínum móttöku og senda fulltrúa í sinn stað þurfa að prenta út og skrifa undir skilmálana sem má finna hér.

Gagnlegar upplýsingar dagana fyrir hlaup

Ráshópar 2018

Nauðsynlegur búnaður

Upplýsingarit fyrir þátttakendur

 

Veðurspá

Samkvæmt spá Veðurvaktarinnar lítur út fyrir rigningu í upphafi hlaups á laugardaginn og rigningu, blæstri á móti hlaupurum og þoku í Hrafntinnuskeri. Frá Álftavatni og í Þórsmörk eru líkur á að verði skýjað, þurrt og hægur vindur. Smelltu á myndina til að skoða nánar. 

LV18-vedurspa-1107-islenska

Veður á þessu svæði er síbreytilegt og mikill snjór í kringum Hrafntinnusker og því mikilvægt að allir hafi tiltækan þann klæðnað sem áður var búið að ráðleggja. Einnig er mikilvægt að hlauparar láti tösku með hlýjum fatnaði til að klæðast eftir hlaup í rútu hlaupsins í Landamannalaugum sem verður flutt inní Þórsmörk og þeir finna í farangurstjaldi á marksvæði. Sjá nánar um farangur hér.

Rétt er að ítreka líka að þó að drykkjarstöðvar séu á leiðinni er nauðsynlegt að hver og einn hlaupari hafi meðferðis drykkjarbrúsa og orkugel eða aðra næringu. Óheimilt er með öllu að kasta rusli frá sér á leiðinni. Vinsamlega leggið ykkar af mörkum við að skilja við hlaupaleiðina eins og enginn hafi farið þar um. Hver og einn þarf að passa uppá að missa ekki frá sér sín gelbréf og drykkjarmál og aðrar umbúðir utan af mat, plástrum o.fl. Hægt er að losa sig við rusl á drykkjarstöðvum og á marksvæðinu í Þórsmörk. Til að minnka rusl er miðað við að hver hlaupari fái aðeins eitt glas á hverri drykkjarstöð en að sjálfsögðu má fylla á það eins oft og hver þarf. Sjá nánar um drykkjarstöðvar og þjónustuna á leiðinni hér.

Nauðsynlegur búnaður

Helstu fregnir af Laugaveginum eru þær að þéttur snjór er nú samfelldur í um 3-4 km radíus í kringum Hrafntinnusker. Öll gil þar í kring eru full af snjó og merkingar einnig undir snjó en hlaupaleiðin verður sérstaklega merkt með appelsínugulum flöggum þannig að allir rati rétta leið. Vegna þessara aðstæðna og því að íslenskt veðurfar er ansi óútreiknanlegt biðjum við ykkur að undirbúa ykkur vel og hafa tiltækan vetrarhlaupaklæðnað.

Nauðsynlegur búnaður

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvaða búnað allir hlauparar ættu að hafa tiltækan á hlaupdag. Langerma bolur og síðar buxur, jakki, vettlingar og höfuðbúnaður sem hylur bæði höfuð og eyru er nauðsynlegur lágmarksbúnaður. Þá eru grófbotna skór og sokkar sem þola að blotna alltaf besti kosturinn. Reynslan hefur sýnt að hlaupurum þykir gott að nota lágar skóhlífar til að varna því að snjór og smásteinar fari ofan í skóna (sjá dæmi um slíka hlíf hér).

Taska í Bláfjallakvísl

Athugið að farangur sem flytja á að Bláfjallakvísl þarf að berast í Laugardalshöll fyrir kl. 17:00 föstudaginn 13.júlí (sjá opnunartíma afhendingar gagna hér). Ekki er tekið á móti farangri í plastpokum, eingöngu litlum töskum og er þyngd að hámarki 3 kg og stærð ca 20cm x 35 cm. Sjá nánar hér.

Upplýsingarit

Allir hlauparar eru vinsamlega beðnir að lesa upplýsingarit hlaupsins sem má finna hér. Þar er yfirlit yfir allt skipulag sem mikilvægt er að þátttakendur þekki vel.

Á miðvikudag fá hlauparar ítarlega veðurspá fyrir hlaupaleiðina og einnig er von á fleiri póstum til að minna á mikilvæg atriði dagana fram að hlaupi. Hvetjum því skráða þátttakendur til að fylgjast vel með tölvupóstinum sínum en allir upplýsingapóstar eru sendir frá netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Jona-skyringarmynd ENK-ISL web

Um Íþróttabandalag Reykjavíkur

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, WOW Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, WOW Northern Lights Run í febrúar og WOW Reykjavik International Games í janúar.